Nánar um eldvarnir hússins
Eldvarnir er samheiti yfir allar fyrirbyggjandi aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir eldsvoða, hindra útbreiðslu elds og gefa fólki tækifæri til að komast undan ef eldur kviknar. Markmiðið með eldvörnum er að vernda líf, heilsu og umhverfi.
Húsfélagið er ábyrgt fyrir eldvörnum hússins í heild og eldvörnum í sameiginlegum rýmum. Eigendur séreigna þurfa að huga að eldvörnum hjá sér. Eldvarnir og öryggi allra sem í húsinu dvelja og um það fara eru sameiginlegt hagsmunaverkefni allra.
Eldvarnarkerfi
Eldvarnarkerfi hússins samanstendur af kerfum sem eru sérstaklega sett upp í tengslum við eldvarnir og svo önnur kerfi sem bregðast við þegar eldur kviknar. Þessi kerfi eru sett upp og stillt í samræmi við brunahönnun hússins. Öll eldvarnarkerfi hússins og allir skynjarar og íhlutir sem tengjast þeim eru sameign og það er óheimilt að eiga við þessi kerfi án leyfis frá húsfélaginu.
Sérhæfð kerfi fyrir eldvarnir eru til dæmis:
- Brunaviðvörunarkerfi
- Rýmingarhjálparkerfi
- Vatnsúðakerfi (sprinkler)
- Reyklosun
- Brunaslöngur og slökkvitæki
- Brunatjöld og brunahurðar
Dæmi um önnur kerfi sem bregðast við eldi:
- Lyftur
- Loftræsting
- Aðgangskerfi
Brunahönnun
Í brunahönnun er grunnurinn lagður að brunavörnum byggingar. Húsfélagið hefur undir höndum tvær útgáfur af brunahönnunn fyrir húsið, sú fyrri var unnin árin 2014 - 2018 af Eflu Verkfræðistofu fyrir PK – Arkitektar ehf. og má sækja hér. Hin var unnin af Örugg Verkfræðistofu fyrir Höfðaíbúðir ehf. árin 2021 - 2022 og má sækja hér.
Brunaviðvörunarkerfi
Húsið er með sameiginlegt brunaviðvörunarkerfi sem er bæði tengt skynjurum í sameign og í séreignarhlutum á öllum hæðum. Kerfið er frá þýska framleiðandanum NSC og var keypt af Öryggismiðstöð Íslands. Ef eldur kviknar þá sér kerfið um að vara fólk sem er í húsinu við með hljóðgjafa og sendir boð á önnur kerfi í húsinu um að virkja eldvarnir.
Aðalstjórnstöð kerfisins er í tæknirými í kjallara hússins en sú stjórnstöð er aðeins fyrir þá sem koma að rekstri kerfisins. Við innganga á báða stigaganga á jarðhæð eru undirstöðvar sem eru notaðar ef eldur kemur upp.
Það hefur sýnt sig að skynjarar í íbúðum geta skynjað reyk þrátt fyrir að enginn eldur sé til staðar, til dæmis þegar verið er að elda eða ef reykt er innandyra. Skynjarar inni í íbúðum eru í mörgum tilfellum staðsettir í alrýmum stutt frá eldavél sem gerir það að verkum að kerfið fer af stað t.d. þegar matur er steiktur á pönnu. Ef það gerist er mikilvægt að hætta því sem veldur brunaboðinu, loftræsta vel rýmið og endurræsa kerfið strax samkvæmt leiðbeiningum um viðbrögð við eldsvoða.
Brunaviðvörunarkerfið er sameign allra og það á líka við um skynjara og hljóðgjafa inni í íbúðum og öðrum séreignarhlutum. Kerfið er raðtengt á milli skynjara þannig breyting eða fikt á einum stað getur haft áhrif á aðra hluta kerfisins þannig að þeir bila eða missa samband við stjórnstöð kerfisins. Óheimilt er að breyta kerfinu eða eiga við það á annan hátt án samþykkis húsfélagsins og húsfélagið getur í samræmi við lög gert kröfu um greiðslu alls kostnað sem mögulega hlýst af því sem er gert við kerfið í óleyfi.
Þriggja skrefa ferli þegar kerfið skynjar reyk
Kerfið er sett upp þannig að ef skynjari skynjar eld þá kemur fyrst forviðvörun sem getur varað frá örfáum sekúndum og allt upp í eina mínútu allt eftir eðli reyksins sem reykskynjarinn nemur. Kerfið lætur ekkert vita í viðkomandi rými, en viðvörunin birtist á skjám útstöðva við innganga.
- Ef magn reyks sem skynjarinn skynjar minkar ekki þá á sér stað „mettun“ í reykskynjaranum og hann sendir frá sér hljóðmerki og boð í brunastöð. Þá virkjast líka önnur eldvarnarkerfi hússins og lyftur stöðvast. Fyrstu fjórar mínúturnar vælir kerfið bara á því svæði skynjarinn er í (td. bara inni í einni íbúð) og ef næst að reykræsta og endursetja kerfið innan þess tíma fara sírenur í öðrum rýmum ekki af stað.
- Ef kerfið er ekki endursett innan 4 mínútna fara reykskynjarar á allri hæðinni í gang. M.ö.o. aðvarar kerfið þá aðra íbúða á hæðinni um hugsanlegan eld. Athugið að þetta á við um alla hæðina í húsinu, líka á sömu hæð í hinum stigaganginum.
- 4 mínútum seinna, eða 8 mínútum frá því að reykskynjari sendi fyrst boð fara allir reykskynjarar í húsinu í gang.
Ef kerfið er endursett en reykurinn er samt ennþá til staðar þá byrjar ferlið aftur á skrefi nr. 1.
Hvað gerist við eldboð?
- Brunalokukerfi virkjast, allar brunalokur loka.
- Útsogskerfi frá íbúðum hábyggingar á hæðum 1. – 7. stöðvast.
- Útsogskerfi frá ruslageymslum stöðvast.
- Útsogskerfi fyrir lágbyggingu, er tvívirkt, sem útsogskerfi frá íbúðum lágbyggingar og sem reyk- útsogskerfi við bilana- og eða eldboð. Á alltaf að vera í gangi.
- Loftræstissamstæðan fyrir kjallarahæðir stöðvast.
- Loftræstissamstæðan fyrir hæðir 8 – 12 stöðvast.
- Yfirþrýstingskerfi í hábyggingu fer í gang.
- Þrýstilétti – og reyklúga í stigahúsi hábyggingar lokar og kúpull á þaki opnar.
- Reykútsogskerfi frá lyftuanddyrum í hábyggingu fer í gang og opnar loku á þeirri hæð sem boðin komu frá.
- Reykútsogsblásari fyrir íbúðir á hæðum 8 – 12 fer í gang.
Hvað gerist sjálfkrafa við endursetningu
- Endursetja brunaviðvörunarkerfið.
- Yfirþrýstingsblásarar stöðvast.
- Þrýstilétti- og reyklúga opnast og kúpull lokar.
- Reykútsogsblásari fyrir lyftuanddyri stöðvast.
- Reykútsogsblásari fyrir hæðir 8 – 12 stöðvast.
- Brunalokukerfið er endurstillt.
Hvað þarf að gera handvirkt eftir endursetningu
- Endurræsa útsogsblásara fyrir íbúðir á hæðum 1 – 7 í hábyggingu og ruslageymslu í rafmangsrými.
- Endurræsa loftræstissamstæður í vatnsrými á -1.
- Endurræsa loftræstisamstæðu í tæknirými á 13. hæð.
Rýmingarhjálp
Á svæðum sem hafa verið skilgreind sem örugg biðsvæði í húsinu eru handboðar fyrir rýmingarhjálp sem hægt er að nota til að óska eftir aðstoð í neyð. Kerfið er notað þannig að ýtt er á takkann á hæðinni sem óskað er eftir aðstoð á og þá eru boð bæði send í undirstöð sem staðsett er í annddyri viðkomandi stigagangs og einnig til vaktstöðvar Öryggismiðstöðvar Íslands sem sendir öryggisvörð á staðinn.
Vatnsúðakerfi (sprinkler)
Sjálfvirkt vatnsúðakerfi er í 12 hæða hluta byggingarinnar, í verslunar- og þjónusturýmum á jarðhæð og á kjallarahæðum -1 og -2. Vatnsúðarar virkjast út frá hita í rýminu sem úðarinn er staðsettur í og virka óháð því hvort eldvarnarkerfið fór í gang eða ekki. Það er alltaf vatnsþrýstingur á kerfinu og það má ekkert eiga við úðarana eða lagnir kerfisins án samráðs við húsfélagið. Stýringar fyrir vatnsúðakerfið eru staðsettar fyrir innan inngang að leikskóla í austurhluta hússins.
Önnur kerfi sem bregðast við brunaboðum
Við öll brunaboð eru lyftur strax sendar á 1. hæð. Þær opnast þar og eru stopp þar á meðan brunaboð er virkt en byrja sjálfkrafa aftur að virka þegar eldvarnarkerfið er endursett. Ef brunaboð kemur af 1. hæð eiga lyftur að stoppa á 2. hæð samkvæmt brunahönnun.
Loftræstikerfi slekkur á sér strax við brunaboð og ekki hægt að kveikja á því aftur fyrr en eldvarnarkerfið er endursett.
Ef skilgreind flóttaleið er læst þá eru neyðaropnunartakkar á aðgangskerfinu sem hægt er að ýta á og aflæsa þannig útgönguhurðinni.