Viðbrögð við eldsvoða
Ef eldur kviknar er mikilvægt að gera öllum í húsinu viðvart um eldinn strax með því að virkja brunaboða. Virkjaðu brunaboða líka þó að eldvarnarkerfi sé þegar farið í gang, það flýtir fyrir að kerfið fari í gang alls staðar og hjálpar öðrum að skilja að eldur sé raunverulega til staðar.
Óskaðu eftir aðstoð með því að hringja í 112 og fylgdu því sem neyðarvörðurinn segir.
Farðu út og vertu úti eru einföld og skýr skilaboð sem ráðlagt er að fylgja ef upp kemur reykur eða eldur. Ef reykur, eldur eða annað hindrar för þína farðu þá á öruggt svæði í húsinu og athugaðu að eldvarnarhurðir og hurðir íbúða séu tryggilega lokaðar til að eldur og reykur nái síður til þín. Gerðu vart við þig þannig viðbragðsaðilar viti af þér. Nýttu þér rýmingarhjálpartakkana sem eru á öllum hæðum nema jarðhæð ef þú þarft á hjálp að halda.
Af öryggisástæðum má ekki nota lyftur við eldsvoða eða þegar aðrar hættur steðja að, eins og til dæmis jarðskjálftar því þær geta stöðvast. Brunaviðvörunarkerfið sendir boð á lyftur þegar kerfið fer af stað og það kemur í veg fyrir að hægt sé að nota þær. Önnur lyftan í Bríetartúni 9 var sett upp sem bruna/-öryggislyfta en ætti samt sem áður ekki að vera notuð í eldsvoða nema samkvæmt fyrirmælum viðbragðsaðila.
Hver og einn verður að taka sjálfstæða ákvörðun hvort hann eigi að ráðast til atlögu með slökkvibúnaði við eld eða ekki. Hús og hluti er hægt að bæta en ekki líf og heilsu.
Brunaboð og eldur er til staðar
Ekki reyna að endursetja eldvarnarkerfið á meðan hætta er ennþá til staðar, kerfið þarf að fá að halda áfram að væla til að vara fólk við hættunni og halda eldvarnarkerfum hússins virkum. Á meðan viðbragðsaðilar athafna sig í húsinu ráða þeir hvort og/eða hvenær kerfið er endursett.
Brunaboð en enginn eldur til staðar
Ef brunaviðvörunarkerfi fór af stað án þess að hætta sé til staðar eða hættan er yfirstaðin þarf að byrja á að laga það sem virkjaði kerfið og svo er hægt að endursetja það. Annars fer kerfið í gang aftur eftir endursetningu.
Virkjaðist út frá reykskynjara
Lofta þarf út úr rýminu ef kerfið fór af stað út frá reykskynjara, til dæmis með að opna glugga og hurð út á svalir.
Fylgdu síðan leiðbeiningunum um endursetningu brunaviðvörunarkerfisins fyrir neðan.
Virkjaðist út frá brunaboða
Til að endursetja brunaboða sem búið er að virkja þarf sérstakan lykil. Eftir að hafa náð í lykilinn þarf að finna brunaboðann sem var virkjaður og endursetja hann. Það er gert með því að bera lykilinn upp að svarta punktinum framan á brunaboðanum fyrir neðan glerið og snúa þar til glerið er komið í eðlilega stöðu.
Fylgdu síðan leiðbeiningunum um endursetningu brunaviðvörunarkerfisins fyrir neðan.
Endursetja brunaviðvörunarkerfið
Eftir að hafa lagað ástandið sem orsakaði brunaboðin er hægt að endursetja kerfið:
- Farðu að stjórnstöð sem staðsett er við útganga á jarðhæð.
- Aflæstu stjórnstöðinni fyrir eldvarnarkerfið með því að snúa lyklinum. Grænt ljós logar á "læsa hnöppum" ljósinu hjá lyklinum þegar stöðin er ólæst og ljósið slökknar þegar stöðin er læst.
- Endursettu kerfið með því að halda "Endursetja" takkanum inni í 5 sekúndur. Kerfið getur tekið allt að mínútu að endurræsa sig og slökkva á sírenum.
- Hringdu og láttu vita að eldboðin hafi verið falsboð og að búið sé að endurræsa kerfið. Símanúmerið sem á að hringja í er á límmiða við stjórnstöðina.
Við það að endursetja kerfið ættu sírenur að hætta að væla, lyftur að byrja að ganga og það slökknar á reyklosun í stigahúsum. Húsumsjón sér um að gera annað sem þarf að gera næst þegar þau koma í húsið.